Rússar saka Bandaríkjamenn um að hefja nýtt vopnakapphlaup

Hópur fólks stóð fyrir mótmælaaðgerðum í Potsdam í dag. Á …
Hópur fólks stóð fyrir mótmælaaðgerðum í Potsdam í dag. Á myndinni sést lögreglumaður hrópa skipanir að einum mótmælandanum. Reuters

Utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, sem sátu fund utanríkisráðherra svonefndra G-8 ríkja í Potsdam í Þýskalandi í dag, deildu harkalega um eldflaugavarnakerfi, sem Bandaríkjamenn vilja setja upp í austurhluta Evrópu. Utanríkisráðherra Rússa sakaði m.a. Bandaríkjamenn um að vera að hefja nýtt kjarnorkuvopnakapphlaup. Tilkynnt var í dag að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, muni heimsækja George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í byrjun júlí.

Utanríkisráðherrarnir komu saman til að undirbúa leiðtogafund G-8 ríkjanna, sem haldinn verður í Þýskalandi í næstu viku. Í lok fundarins í dag ítrekaði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þá skoðun sína, að ótti Rússa við eldflaugavarnakerfið væri fáránlegur.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, brást ókvæða við og sakaði Bandaríkjamenn um að endurvekja hugsunarhátt kalda stríðsins. „Ég held að þeir sem skilja vandamálið geri sér grein fyrir því, að það er ekkert fáránlegt við þetta mál vegna þess að vopnakapphlaupið er að hefjast á ný," sagði Lavrov á blaðamannafundi eftir fund ráðherranna.

Bandaríkin segja, að eldflaugavarnakerfinu sé ætlað að verjast árásum frá óútreiknanlegum ríkjum, svo sem Norður-Kóreu, og það sé engin ógnun við rússneska öryggishagsmuni.

Þau Lavrov og Rice deildu einnig um tillögur Martti Ahtisaari, samningamann Sameinuðu þjóðanna í málefnum Kosovo en hann leggur til að öryggisráð SÞ veiti Kosovo sjálfstæði frá Serbíu.

Lavrov lýsti því yfir, að Rússar væru andvígir þessari tillögu og sagðist vona að stjórnvöld í Moskvu þyrftu ekki að beita neitunarvaldi gegn henni á fundi öryggisráðsins.

Rice sagði hins vegar að Vesturveldin væri einhuga um að styðja tillögur Ahtisaaris.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert