Fær ekki 3,4 milljarða í bætur fyrir horfnar buxur

Roy Pearson utan við dómhús í Washington.
Roy Pearson utan við dómhús í Washington. AP

Bandarískur dómari dæmdi í dag að eigendur þvottahúss í Washingtonborg hefði ekki brotið reglugerð borgarinnar um neytendavernd með því að uppfylla ekki væntingar viðskiptavinar um hvað fælist í slagorði á auglýsingaskilti þar sem stóð: Tryggjum ánægju viðskiptavinanna. Viðskiptavinurinn krafðist 54 milljóna dala, jafnvirði 3,4 milljarða króna, í bætur fyrir buxur, sem hurfu í þvottahúsinu.

Judith Bartnoff, dómari, komst að þeirri niðurstöðu að Roy L. Pearson Jr. fengi engar bætur frá þeim Soo Chung, Jin Nam Chung og Ki Y. Chung, eigendum þvottahússins. Þá var Pearson dæmdur til að greiða málskostnað sem orðinn er hár.

Þetta mál hefur vakið alþjóðlega athygli og kröfur um endurbætur á bandaríska réttarkerfinu. Þau Jin og Ki fluttu fyrir sjö árum frá Suður-Kóreu til Washington með ungum syni sínum og opnuðu þar efnalaug. Allt gekk að óskum þar til dómarinn Roy Pearson varð fyrir því að buxur, sem hann vildi láta hreinsa, týndust í efnalauginni. Buxurnar komu í leitirnar viku síðar en dómarinn heimtaði samt jafnvirði n75.000 króna í bætur. Þegar því var hafnað höfðaði Pearson mál og krafðist himinhárra bóta.

Röksemdir Pearsons voru m.a. þær, að hann vildi ekki lengur láta Chung-hjónin hreinsa fötin sín og yrði því að fara í hverri viku í aðra efnalaug með fötin sín. Það þýddi að hann yrði að leigja bíl næstu 10 árin og fyrir það vildi hann fá bætur.

Þá benti Pearson á, að í glugga fyrirtækis Chungs hafi staðið á skilti: Tryggjum ánægju viðskiptavinanna. Týndi dómarinn til 12 atriði sem hann var óánægður með og vísaði til reglugerðar um bætur sem fyrirtæki skuli greiða daglega þar til viðskiptavinur sé orðinn sáttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert