Sífellt fleiri innlagnir á sjúkrahús tengdar áfengisnotkun

Tvöfalt fleiri 16 ára og eldri eru lagðir inn á sjúkrahús í Bretlandi vegna áfengisvandamála nú heldur en fyrir áratug síðan. Ungmennum yngri en 16 ára hefur fjölgað um þriðjung sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna áfengisvanda. Þetta kemur fram í nýrri upplýsingaskýrslu frá heilbrigðis- og félagsmálayfirvöldum í Bretlandi.

Samkvæmt skýrslunni voru innlagnirnar 187.640 talsins 2005-2006 samanborið við 89.280 árin 1995-1996 meðal 16 ára og eldri.

Þegar horft er til 16 ára og yngri fjölgaði innlögnum úr 3.870 í 5.280 á sama tímabili.

Samkvæmt skýrslunni látast sífellt fleiri úr sjúkdómum tengdum áfengissýki eða veikjast alvarlega. En á sama tíma verður sífellt auðveldara að nálgast áfengi og bresk heimili eyða mun meira af ráðstöfunartekjum heimilla í áfengiskaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert