Komið í veg fyrir hryðjuverkaárás

Breska lögreglan kom í veg fyrir hryðjuverkaárás á miðborg Lundúna er hún var kölluð út vegna grunsamlegrar bifreiðar við Haymarket sem er í nágrenni Picadilly Circus um tvöleytið í nótt. Í bifreiðinni voru gas- og bensínkútar auk þess mikið magn af nöglum var í bifreiðinni. Á blaðamannafundi í Lundúnum greindi lögreglan frá því að ef ekki hefði verið komið í veg fyrir árásina hefðu margir getað týnt lífi eða særst.

Sky sjónvarpsstöðin hafði eftir sjónarvottum í morgun, að karlmaður hafi ekið bílnum, sem var silfurgrár Mercedes Benz, á öskutunnur nálægt næturklúbbi á svæðinu og síðan tekið til fótanna.

AP fréttastofan hefur eftir háttsettum manni innan bresku lögreglunnar að búnaðurinn sem fannst í bifreiðinni minni helst á bílsprengjur sem uppreisnarmenn nota í Írak. Unnið er að rannsókn málsins og þá meðal annars hvort tengsl séu á milli bílsins og tveggja árása sem einnig tókst að koma í veg fyrir, fyrirhugaða árás á næturklúbb á West End árið 2004 og árásir sem átti að gera í Lundúnum og New York þar sem koma átti gaskútum fyrir í bifreiðum.

Fjöldi veitingastaða, kráa og kvikmyndahúsa er að finna á Haymarket svæðinu og er oft fjöldi fólks samankomið þar á kvöldin og að næturlagi.

Forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, sagði atburðinn í nótt minna Breta á að landið eigi ávalt yfir höfði sér hættu á hryðjuverkum og alltaf þyrfti að vera á verði.

Þann 7. júlí eru tvö ár liðin frá því að hryðjuverkaárás var gerð á almenningssamgöngur Lundúnaborgar. Árásir sem kostuðu 52 almenna borgara lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert