Kanadamenn gera lítið úr norðurpólsleiðangri Rússa

Kafbátarnir, sem fóru niður á hafsbotn á norðurpólnum í dag.
Kafbátarnir, sem fóru niður á hafsbotn á norðurpólnum í dag. Reuters

Utanríkisráðherra Kanada gerði í dag lítið úr kafbátaleiðangri Rússa niður á hafsbotn á norðurpólnum en leiðangrinum er að sögn Rússa ætlað að afla gagna sem staðfesti að stórt heimskautssvæði eigi að tilheyra Rússlandi. Þá skildu Rússarnir eftir hylki, sem inniheldur fána Rússlands, á hafsbotninum til að gera tilkall til svæðisins með táknrænum hætti.

Annar af tveimur kafbátum, sem Rússar sendu niður á hafsbotn á norðurpólnum í morgun, er kominn upp á yfirborðið heilu og höldnu eftir rúmlega átta tíma köfun. Hinn er enn á leiðinni upp.

Peter MacKay, utanríkisráðherra Kanada, gerði lítið úr leiðangrinum í samtali við sjónvarpsstöðina CTV.

„Sjáðu til, nú er ekki lengur 15. öldin. Það er ekki hægt að fara um heiminn og skilja eftir fána og segja: Við gerum tilkall til þessa landsvæðis," sagði MacKay.

Kafbátarnir, sem hvor um sig er með 3 manna áhöfn, komust á sjávarbotn á 4261 metra dýpi. Mun þetta vera í fyrsta skipti, sem kafað er niður á hafsbotn á norðurpólnum. Rússar segja að jarðfræðilegar vísbendingar séu um að neðansjávarhryggur, Lomonosov, sé hluti af landgrunni Síberíu og tilheyri því Rússlandi samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða 1,2 milljóna ferkílómetra svæði, á stærð við Frakkland, Þýskaland og Ítalíu samanlagt. Talið er að á svæðinu séu allt að tíu milljarðar tonna af jarðolíu og -gasi. Hugsanlegt er að bráðnun íssins vegna loftslagsbreytinga verði til þess að hægt verði að nýta þessar auðlindir þegar fram líða stundir og nokkrar aðrar þjóðir hugsa sér gott til glóðarinnar.

„Tilkall okkar til heimskautasvæðisins er stutt gildum rökum," sagði MacKay. „Það ógnar ekkert yfirráðum Kanada á heimskautasvæðinu og eins og þið vitið höfum við skuldbundið okkur með ýmsum hætti, forsætisráðherrann fór þangað nýlega og kann að fara þangað aftur bráðlega svo við höfum engar áhyggjur af þessu. Þetta er bara sjónarspil hjá Rússum."

Rússneska rannsóknarskipið Akademik Fjodorov þaðan sem leiðangrinum er stýrt.
Rússneska rannsóknarskipið Akademik Fjodorov þaðan sem leiðangrinum er stýrt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert