Átti að segja að tilræðismaður væri í fríi á Íslandi

Flak bílsins sem Kafeel ók á flugstöðina í Glasgow.
Flak bílsins sem Kafeel ók á flugstöðina í Glasgow. Reuters

Kafeel Ahmed, 27 ára Indverji sem ók bíl hlöðnum gaskútum á flugstöðina í Glasgow 30. júní, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í borginni í gærkvöldi. Hann hlaut alvarleg brunasár á 90% líkamans er eldur kom upp í bifreiðinni sem hann ók ásamt öðrum manni á flugstöðina.

Þrír menn, þ.á m. bróðir Ahmeds, eru enn í gæsluvarðhaldi í Bretlandi vegna tilræðisins í Glasgow og misheppnaðra tilræða í London daginn áður. Indverskur læknir sem var í haldi í Ástralíu vegna málsins hefur verið látinn laus.

Bróðir Kafeels Ahmeds, Sabeel Ahmed, hefur verið ákærður fyrir að hafa vitað nákvæmlega hvað til stóð en ekki gert lögreglu viðvart. Indverskir fjölmiðlar segja, að skömmu eftir að bílsprengjum var komið fyrir í London, daginn áður en tilræðið var framið í Glasgow, hafi Kafeel sent sms-boð til Sabeels með aðgangsorði að tölvupóstfangi á netinu.

Þar var að finna erfðaskrá Kafeels og fyrirmæli frá honum um að Safeel ætti að segja lögreglunni að Kafeel væri að vinna að gróðurhúsaáhrifaverkefni og væri í fríi á Íslandi. Þetta ætti Safeel að segja öllum sem spyrðu um Kafeel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert