Brown sakaður um að koma fram við Breta eins og „bjána“

David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AP

David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur sakað Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um að „koma fram við bresku þjóðina eins og hún sé bjáni“ með þeirri ákvörðun sinni að boða ekki til kosninga í landinu.

Brown sagði í viðtali við BBC að það væri hans skylda að íhuga hvort halda ætti kosningar í landinu eður ei, en að hann hafi ákveðið að sleppa því svo hann gæti komið framtíðarsýn sinni fyrir Bretland á framfæri.

Cameron segir hinsvegar að Brown sé ekki heiðarlegur í máli sínu því „allir vita að hann ætlar ekki að boða til kosninga vegna þess að það er hætta á því að hann tapi“.

Menzies Campbell, leiðtogi Frjálslynda demókrataflokksins, segir að Brown hafi misst kjarkinn

Breskir fjölmiðlar eru einnig ómyrkir í máli og segja að Brown hafi sett niður með því að ýta undir vangaveltur um að hugsanlega verði boðað til þingkosninga í nóvember en lýsa því svo yfir í gær að engar kosningar verði í ár. Blaðið Independent segir að Brown hafi lent í ímyndarkreppu og Sunday Telegraph segir í fréttaskýringu, að Brown hafi fengið á sig heigulsstimpil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert