Blair sakar Írana um að styðja hryðjuverk

Tony Blair.
Tony Blair. AP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur sakað Írana um að styðja hryðjuverk og þá varaði Blair við því að heimurinn sé í svipuðum sporum í dag og hann var á þriðja áratug síðustu aldar þegar fasistar voru að komast til valda.

Á góðgerðarfundi í New York sagði Blair að Íran væri reiðubúið að koma á óstöðugleika í friðsömum ríkjum.

Í sinni fyrstu stóru ræðu, frá því hann yfirgaf Downingstræti, varði hann enn og aftur ákvörðun sína að gera innrás í Írak.

Hann hvatti Bandaríkin, Bretland og bandamenn þeirra að vera vel vakandi í baráttunni við öfgahópa.

Blair, sem starfar nú sem sendifulltrúi Miðausturlanda kvartettsins, varaði við því að menn yrðu hraktir á flótta þar sem heimurinn stæði í svipuðum sporum og þegar fasistar voru að komast til valda í kringum 1920.

Í ræðu sinni talaði Blair m.a. um það sem hann kallar íslamska öfgastefnu.

„Þessi hugmyndafræði á sér nú ríki - Íran - sem er reiðubúið að styðja og fjármagna hryðjuverk í viðleitni sinni að koma á óstöðugleika í löndum þar sem fólk vill fá að lifa í friði,“ sagði Blair

„Það viðhorf er til staðar, jafnvel innan okkar eigin raða, að trúa því að þeir eru eins og þeir eru vegna þess að við höfum ögrað þeim, og ef við myndum láta þá í friði þá myndu þeir láta okkur í friði,“ sagði fyrrum forsætisráðherrann.

„Ég óttast að þetta sé á misskilningi byggt. Þeir hafa ekki í hyggju að láta okkur í friði.“

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert