Dómsdagssöfnuður bíður eftir heimsendi ofan í helli

Rússneskum prestum hefur enn ekki tekist að telja meðlimi dómsdagssöfnuðar á að koma út úr helli í suðurhluta landsins þar sem meðlimirnir hafa lokað sig inni og bíða dómsdags, sem leiðtogi þeirra segir að vænta megi í maí. Þrátt fyrir að yfirvöld hafi leiðtogann í haldi og hann hafi beðið meðlimina að koma út láta þeir sér ekki segjast.

Í söfnuðinum eru m.a. fjögur börn. Fyrr í mánuðinum gróf fólkið út hellakerfi í Penza-héraði, sem er um 640 km suðaustur af Moskvu, og hóta nú hópsjálfsmorði ef yfirvöld láti til skarar skríða og reyni að ná þeim út. Alls eru 29 meðlimir söfnuðarins í hellinum.

Talsmaður yfirvalda sagði að reyna ætti að semja við fólkið, en alls ekki stæði til að lögregla réðist inn í hellinn.

Söfnuðurinn kallar sig Hina sönnu rússnesku rétttrúnaðarkirkju, og leiðtogi hans er faðir Pjotr Kúznetsov. Hann sagði fylgismönnum sínum að þeir skyldu fara í felur og bíða þar dómsdags sem upp muni renna í maí.

Þótt Kúznetsov hafi nú lagt yfirvöldum lið og skipst á bréfasendingu við fylgjendur sína og hvatt þá til að koma út segjast safnaðarmeðlimir ekki treysta orðum hans því að þeir telji að yfirvöld beiti hann þrýstingi.

Frá því að Kúznetsov var handtekinn hefur hann undirgengist geðrannsókn og verið ákærður fyrir að hafa stofnað trúarsöfnuð sem standi að ofbeldisverkum. Talsmaður yfirvalda sagði við CNN: „Ég hef hitt [Kúznetsov] og hann er svo sannarlega ekki með öllum mjalla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert