Tölvudiskar með persónuupplýsingum um barnabótaþega týndust

Tveir tölvudiskar sem innihalda persónuupplýsingar um alla barnabótaþega í Bretlandi, alls um 25 milljónir manna, eru týndir, en Alastair Darling fjármálaráðherra sagði í dag að engar vísbendingar væru um að upplýsingarnar á diskunum hefðu ratað í hendur óprúttinna aðila.

Darling greindi frá því á breska þinginu í dag að diskarnir hefðu týnst í pósti vegna þess að þeir hefðu verið sendir án fullnægjandi skráningar og varðúðarráðstafana. Ástæðan væri handvömm starfsmanna ríkisskattstjóra.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar segja málið grafalvarlegt, og Darling sagði sjálfur að um væri að ræða „mjög alvarleg mistök embættis ríkisskattstjóra.“

Á diskunum eru persónuupplýsingar um allar fjölskyldur í Bretlandi með börn undir 16 ára aldri, þ.á m. nöfn, heimilisföng, fæðingardaga, almannatrygginganúmer og í mörgum tilvikum upplýsingar um bankareikninga.

Darling sagði að þótt ekkert benti til að upplýsingarnar hefðu lent í höndum óprúttinna aðila væri ástæða til að fólk fylgdist vel með bankareikningum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert