Lokatilraun til að handsama landflótta nasista

Simon Wiesenthal lést fyrir tveimur árum
Simon Wiesenthal lést fyrir tveimur árum AP

Wiesenthal stofnunin hefur hrint af stað verkefni þar sem reynt verður „í síðasta sinn" að hafa uppi á stríðsglæpamönnum sem frömdu glæpi í valdatíð nasista í Þýskalandi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Verkefnið stendur saman af auglýsingaherferð og peningagreiðslum til þeirra sem veita upplýsingar sem leiða til sakfellingar.

Ætlunin er að auglýsa í fjórum löndum, Chile, Úrúgvæ, Argentínu og Brasilíu, en fjöldi fyrrum nasista flýði til þessara landa eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Svipuðum aðferðum var beitt í Litháen, Lettlandi og Eistlandi árið 2002, en þá fengust nöfn 488 grunaðra í 20 löndum. 99 málanna hafa verið send saksóknurum og hafa þrjár handtökuskipanir verið gefnar út, tvær framsalsbeiðnir og eru tugir mála enn í rannsókn.

Rúmlega sextíu ár eru frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk og er því viðbúið að þeir sem eftir lifa og hafa ekki komist í hendur réttvísinnar sú orðnir ansi aldraðir. Verkefnið ber enda titilinn „Síðasta tækifærið".

Stofnandi Wiesenthal stofnunarinnar, Símon Wiesenthal, lést fyrir tveimur árum, hann var einn þeirra sem lifðu af dvöl í útrýmingarbúðum nasista, en um sex milljónir gyðinga voru myrtar í slíkum búðum. Fyrir hans tilstilli hafa meira en 1.100 stríðsglæpamenn verið dæmdir fyrir voðaverk sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert