Dauðarefsing afnumin í New Jersey

Samþykkt hefur verið á ríkisþingi og öldungadeild New Jersey að afnema dauðarefsingu í ríkinu og er New Jersey þar með fyrsta ríki Bandaríkjanna í fjóra áratugi til að afnema dauðarefsingu. Jon S. Corzine, ríkisstjóri, ætlar að skrifa undir lögin innan viku.

Vonast stuðningsmenn þess að dauðarefsing verði afnumin í öllum ríkjum Bandaríkjanna til þess að ákvörðun New Jersey verði til þess að fleiri ríki taki sömu ákvörðun. Dauðarefsing er lögleg í 37 ríkjum Bandaríkjanna.

Frumvörp um að afnema dauðarefsingu hafa verið samþykkt á þingum  Colorado, Montana og New Mexico nýverið án þess að frekar hafi verið aðhafst í að gera þau að lögum.

Síðasta aftaka fór fram í Bandaríkjunum í Texas þann 25. september sl. en öðrum aftökum hefur verið frestað þar sem beðið er niðurstöðu Hæstaréttar um hvort aftaka með banvænni sprautu standist stjórnarskrá landsins.

Dauðarefsingu var komið á að ný í New Jersey árið 1982 eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði ríkjum að endurvekja lagaákvæði um dauðarefsingar. Hins vegar hefur enginn verið tekinn af lífi í ríkinu frá því árið 1963.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert