Ársgamlar endur í jólamatinn

Jólaundirbúningur stendur nú sem hæst í Danmörku sem annars staðar. Það er þó fleira en verðið sem Danir þurfa að kynna sér áður en þeir ákveða hvar þeir ætla að versla í jólamatinn.

Komið hefur í ljós að verslunarkeðjan Kvickly Xtra býður upp á ásgömul matvæli sem vinsæl eru á jólum þar í landi. Ekki er þó um að ræða matvæli sem komin eru fram yfir síðasta söludag. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt könnun fréttavefjarins Fpn.dk er bæði boðið upp á ársgamlar endur og eplaskífur í verslunum Kvickly Xtra í þremur af hverjum fjórum tilfellum. Í verslunum Bilka og Føtex er hins vegar einungis boðið upp á nýslátraðar endur og nýbakaðar eplaskífur, samkvæmt upplýsingum á umbúðum.

Forsvarsmenn Kvickly Xtra þvertaka fyrir að þetta gömlum matvælum sé ekki dreift í búðir keðjunnar og segja að um sé að ræða eldri birgðir einstakra verslana. Þá segja þeir það á ábyrgð yfirmanns hverrar verslunar að ákveða hvenær vörur séu teknar úr sölu.

Jens Juul Nielsen, upplýsingafulltrúi Coop eiganda Kvickly Xtra, segir könnunina því ekki vera til marks um stefnu fyrirtækisins en bendir jafnframt á að þar sem umræddar vörur séu ekki komnar fram yfir síðasta söludag sé ekkert að þeim. Þá segir hann þá viðskiptavini sem vilji ferska vöru geta farið fram á slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert