Sonur Bhutto einungis formaður í orði

Feðgarnir Asif Ali og Bilawal eftir að Benazir Bhutto var …
Feðgarnir Asif Ali og Bilawal eftir að Benazir Bhutto var borin til grafar á föstudag. Reuters

Ákveðið var á fundi framkvæmdastjórnar Þjóðarflokksins í Pakistan að Bilawal Zardari, 19 ára gamall sonur Benazir Bhutto verði formlegur formaður flokksins en að Asif Ali Zardari, faðir hans, muni sjá um að stýra flokknum.  Zardari hvatti stuðningsmenn flokksins í ávarpi í dag til að sýna stillingu og kjósa Þjóðarflokkinn í væntanlegum þingkosningum.

Bilawal sagði á blaðamannafundi eftir fund flokksins, að barátta Þjóðarflokksins fyrir lýðræði muni halda áfram af auknum krafti. „Móðir mín sagði alltaf, að lýðræði sé besta hefndin."

Stuðningsmenn flokksins hrópuðu: „Benazir, prinsessa himnanna," og „Bilawal, haltu áfram. Við styðjum þig."

Bilawal sagði, að faðir hans muni „sjá um" flokkinn á meðan hann heldur áfram námi sínu, en pilturinn er við nám í Oxfordháskóla á Englandi. Zardari sagði blaðamönnum síðan að beina spurningum til sín þar sem sonur hans væri á viðkvæmum aldri.

Zardari hefur verið einn af helstu valdamönnum í þjóðarflokknum en han var umhverfisráðherra í síðari ríkisstjórn Bhutto. Hann hefur einnig verið sakaður um víðtæka fjármálaspillingu.

Zardari tilkynnti að Þjóðarflokkurinn muni taka þátt í þingkosningum, sem boðaðar voru 8. janúar en verður hugsanlega frestað vegna morðsins á Bhutto. Hann hvatti Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, til að hætta við áform um að sniðganga kosningarnar.

Þá hvatti Zardari einnig Sameinuðu þjóðirnar og Bretland til að veita aðstoð við rannsókn á morðinu á Benazir Bhutto og hvatti stuðningsmenn hennar, sem staðið hafa fyrir óeirðum um allt landið síðustu daga, til að sýna stillingu. Yfir 40 manns hafa látið lífið í óeirðunum.

„Við munum hefna morðsins á Bhutto með lýðræðislegum hætti eftir að við sigrum í kosningunum," sagði hann.

Asif Ali Zardari stýrir bænahaldi á fundi Þjóðarflokksins í dag.
Asif Ali Zardari stýrir bænahaldi á fundi Þjóðarflokksins í dag. ZAHID HUSSEIN
Frá fundi framkvæmdastjórnar Þjóðarflokksins í dag.
Frá fundi framkvæmdastjórnar Þjóðarflokksins í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert