Norðmenn framselja meintan stríðsglæpamann

mbl.is

Norðmenn ætla að framselja Damir Sireta, sem er grunaður um að hafa tekið þátt í að myrða 200 króatíska stríðsfanga árið 1991, til Serbíu. Sierta var handtekinn í Noregi þann 5. október 2006 en hann hefur búið í Noregi frá árinu 1998. Verður Sireta framseldur innan fjögurra vikna, samkvæmt upplýsingum frá norska dómsmálaráðuneytinu.

Þegar Króatía lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 gerðu serbneskir íbúar landsins uppreisn og náðu um þriðjungi landsins á sitt vald með stuðningi stjórnvalda í Serbíu. Uppreisnin var bæld niður árið 1995 og Króatía endurheimti landssvæðið sem Serbar höfðu tekið.

Króatíu-Serbar tóku fjölda manns til fanga í bænum Vukovar árið 1991. Flestum var á endanum sleppt en farið var með um 200 þeirra að bóndabæ í þorpinu Ovcara þar sem þeir pyntaðir og teknir af lífi.

Sireta neitaði því fyrir dómi í Noregi á síðasta ári, þegar fjallað var um hvort framselja ætti hann til Serbíu, að hafa tekið þátt í morðunum enda hafi hann ekki verið á svæðinu á þeim tíma. Að sögn Sireta var hann að leita konu sinnar á þeim tíma og hafði yfirgefið Vukovar talsvert áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert