Olmert: Neyðarástand mun ekki skapast

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að Ísraelar muni ekki láta neyðarástand skapast á Gasasvæðinu. Þeir muni þó heldur ekki veita Palestínumönnum munað sem geri líf þeirra þægilegt á meðan herskáir Palestínumenn haldi uppi flugskeytaárásum yfir landamærin til Ísraels.

Ísraelar drógu mjög úr eldsneytisflutningi þangað á föstudag og í gær var slökkt á raforkuveri sem sér Gasasborg fyrir rafmagni vegna eldsneytisskorts. Rafmagnslaust er með öllu í borginni og segja Palestínumenn að fimm sjúklingar hafi látið lífið á sjúkrahúsum vegna þess.

Olmert hét því í samtölum við Hosni Mubarak Egyptalandsforseta og Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, í morgun að ekki kæmi til neyðarástands. Hann ítrekaði þó einnig fyrri yfirlýsingar sínar um að Hamas samtökin sem stjórna svæðinu, ýki afleiðingar aðgerða Ísraela til að afla málstað sínum stuðnings á alþjóðavettvangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert