Eftirspurn eftir dönsku sæði

Mikil eftirspurn er eftir dönsku sæði á meðal sænskra kvenna. Ástæðan mun vera sú að samkvæmt dönskum lögum eru sæðisgjafir nafnlausar en í Svíþjóð eru upplýsingar um sæðisgjafa skráðar og því geta börn sem getin eru með sænsku sæði leitað uppi feður sína óski þau þess. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Í Danmörku fá hvorki konur, sem fá gjafasæði, né karlar, sem gefa það, upplýsingar um það hvaðan sæðið kemur og hver fær það.   

„Þær óttast að það komi síðar upp vandamál, sé sæðisgjafinn nafngreindur. Ég myndi halda að bara á okkar stofu muni fleiri en hundrað sænskar konur gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð á þessu ári,” segir  Kaare Rygaard yfirlæknir tæknifrjóvgunarstofunnar Trianglen í Kaupmannahöfn.

Hann segir einnig ljóst að mun færri danskir karlar myndu gefa sæði yrði lögunum breytt þannig að sæðisgjafir yrðu ekki lengur nafnlausar. „Flestir sæðisgjafar eru ungir menn sem eru ef til vill í námi og bæta fjárhaginn með þeim peningum sem þeir fá fyrir sæðisgjafir. Þeir myndu örugglega hætta því ættu þeir á hættu að þau börn, sem getin eru með sæði þeirra, leiti þá uppi,” segir hann og bætir því við að sæðisgjafar fái um að bil 500 danskar krónur þ.e. um 6.400 íslenskar krónur fyrir sæðisskammtinn. 

Lars Kambjerre, sérfræðilæknir í Hróarskeldu, segir í samtali við dagblaðið Roskilde að sænskar konur geti þó einungis gengist undir tæknifrjóvgunarmeðferð á einkastofum í Danmörku þar sem þær greiða fyrir þjónustuna úr eigin vasa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert