Írakar aðvara Tyrki

Tyrkneskir hermenn sjást hér við landamærin landsins við Írak.
Tyrkneskir hermenn sjást hér við landamærin landsins við Írak. Reuters

Utanríkisráðherra Íraks hefur aðvarað Tyrki, en hann segir að ef heraðgerðir Tyrkja gagnvart kúrdískum uppreisnarmönnum í Norður-Írak muni stigmagnast geti það haft alvarleg áhrif fyrir svæðið.

Hoshyar Zebari sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að hann hafi ekki samþykkt aðgerðir Tyrkja og hann segir að Tyrkir eigi að snúa heim eins fljótt og auðið er. Tyrkir segja að ekki sé um meiriháttar aðgerðir að ræða, en þær eru bundnar við afskekkt svæði þar sem fáir búa.

Bæði Tyrkir og uppreisnarmennirnir hafa staðfest mannfall í sínum röðum.

Bandaríkin hafa hvatt stjórnvöld í Tyrklandi til að takmarka aðgerðir sínar. Þá hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagt að Tyrkir verði að virða alþjóðalög.

Fréttaskýrendur segja að tilgangur hernaðaraðgerða Tyrkja sé að einangra uppreisnarmennina og koma í veg fyrir að þeir geti gert árásir á Tyrkland frá Norður-Írak.

Ekki liggur fyrir hversu margir hermenn fóru yfir landamærin til Íraks, en talið er að þeir séu á bilinu 3.000 - 10.000 talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert