Obama og Clinton harðorð

Hillary Clinton og Barack Obama hittust í síðasta sinn í sjónvarpssal fyrir forkosningarnar í Ohio og Texas í næstu viku. Þau Clinton og Obama voru harðorð og sökuðu m.a. hvort annað um að beita bellibrögðum við kosningabaráttuna.

Barátta Obama og Clinton virðist nú hafa náð hámarki en hallað hefur stöðugt undan fæti hjá Clinton síðan um áramót og þarf hún að sigra bæði í Ohio og Texas til að eiga möguleika á að verða valin forsetaframbjóðandi demókrata.

Sökuðu þau hvort annað um að nota neikvæðan áróður í herferð sinni. Clinton kvartaði undan harkalegum árásum Obama á stefnu hennar í heilbrigðismálum og NAFTA samninginn.

Obama tók í sama streng en lagði áherslu á umdeilda myndbirtingu af sér í sómölskum þjóðbúningi. Hann sagðist þó trúa Clinton þegar hún sagðist ekki vita hver stóð að birtingu myndarinnar.

Clinton og Obama virtust þó að mörgu leyti sammála um stefnu. Bæði hafa þau heitið gagngerum endurbótum á bandaríska heilbrigðiskerfinu, en eru ötul við að benda á meinta galla á hugmyndum hvors annars. Þá segjast þau bæði vilja endurskoða NAFTA fríverslunarsamninginn við Kanada og Mexíkó.

Helst greinir Obama og Clinton á um utanríkisstefnu en Clinton hefur gagnrýnt Obama fyrir reynsluleysi hans og segir að reynsla sín bæði sem forsetafrú og þingmaður geri að verkum að hún sé best til þess fallin að stýra bandaríska hernum.

Obama svaraði því að löng dvöl í Washington og reynsla væri ekki sami hluturinn og sagði að ákvörðun Clinton um að greiða atkvæði með stríðinu í Írak árið 2002 hafi verið mikil mistök.

Obama og Clinton í sjónvarpssal nýverið
Obama og Clinton í sjónvarpssal nýverið AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert