Þverbraut umferðarlög á hjólinu

David Cameron.
David Cameron. Reuters

David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, baðst í dag afsökunar á fjölda umferðarlagabrota, sem hann framdi þegar hann hjólaði í vinnuna í breska þinginu dag einn í vikunni.   

Cameron hefur lýst miklum áhuga á umhverfismálum eftir að hann var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins og hjólar gjarnan í miðborg Lundúna. Ljósmyndari blaðsins Daily Mirror fylgdi honum eftir og náði myndum að flokksleiðtoganum þar sem hann hjólaði m.a. á móti einstefnu og fór yfir óbrotna stöðvunarlínu þegar hann beið á rauðu ljósi.

Þá hjólaði hann einnig yfir gatnamót gegn rauðu ljósi og braut fleiri reglur í 30 mínútna löngum hjólreiðatúr.

„Ég veit að það er mikilvægt að fylgja umferðarreglum en ég hef greinilega gert mistök í þessari ferð og mér þykir það leitt," sagði Cameron í yfirlýsingu.

Fyrir tveimur árum, skömmu eftir að Cameron var kjörinn flokksleiðtogi, náðist af honum mynd þar sem hann hjólaði á hjóli sínu en í humátt á eftir kom bílstjóri hans í embættisbílnum sem flutti skó, skjalatösku og skjöl Camerons.

Hann hefur síðan skipt um embættisbíl og notar nú bíl sem losar ekki eins mikið koltvíildi. Embættismenn segja hins vegar, að Cameron geti ekki flutt skjalakassa sína á hjólinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert