Kynþáttaræða Obama slær í gegn á netinu

Ræða, sem forsetaframbjóðandinn Barack Obama flutti um kynþáttamál í Philadelphiu í byrjun vikunnar, hefur slegið í gegn á netinu og hafði myndskeið af ræðunni á vefnum YouTube verið opnað nærri 2,5 milljón sinnum í gærkvöldi.

Myndskeiðið er 37 mínútur og 39 sekúndur, sem er afar langt á mælikvarða netsins. En mun fleiri hafa skoðað það myndskeið en styttri myndskeið sem sýna búta úr ræðunni.

„Ég táraðist yfir ræðunni," segir einn netverjinn í athugasemd við myndskeiðið. „Ég fór næstum að gráta."

Netleit að „Obamaspeech" jókst um 7627 prósent daginn eftir að Obama flutti ræðu sína, samkvæmt mælingu Yahoo Buzz. „Sumir settu ræðuna í sögulegt samskipti. Margir báru lof á hana fyrir að vera heiðarleg," segir Molly McCall hjá Yahoo Buzz. „Það er ekki hægt að tengja þær saman með vissu, en það var áberandi að leit að „I have a dream speech" og „Martin Luther King Free at Last speech" jókst daginn eftir að Obama talaði."

Í ræðunni fjallaði Obama um að hann væri sonur hvítrar móður og svarts föður og lýsti síðan þeirri togstreitu, sem er á milli kynþátta í bandarískri menningu og sem stjórnmálamenn tala sjaldan um. Ræðan var flutt vegna deilna, sem spruttu vegna ummæla  Jeremiah Wright, fyrrum sóknarprests Obama.

„Svo Obama fékk umtal," skrifaði McCall. „Það verður að koma í ljós hvort að skaðar hann eða kemur honum til góða."

„Þetta var ræða fyrir hugsandi Bandaríkjamenn," segir einn netverji á spjallrás YouTube. „Þess vegna óttast ég að fæstir Bandaríkjamenn skilji hana."

Ræða Obama í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert