Mandela enn skilgreindur sem hryðjuverkamaður

Nelson Mandela, fyrrum forseti Suður- Afríku.
Nelson Mandela, fyrrum forseti Suður- Afríku. Reuters

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvatt Bandaríkjaþing til breyta þeirri skilgreiningu sinni að Afríska þjóðarráðið (ANC), stjórnarflokkur Suður Afríku, séu hryðjuverkasamtök. Skilgreiningin er frá tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku og gerir það að verkum að veita þarf mönnum á borð við Nelson Mandela sérstaka undanþágu vilji þeir koma til landsins. 

„Það er satt að segja mjög vandræðalegt að ég skuli enn þurfa að veita sérstaka undanþágu til þess að starfsbróðir minn, utanríkisráðherra Suður-Afríku, hvað þá hinn mikli leiðtogi, Nelson Mandela, fái aðkoma hingað til lands,  sagði Rice er hún ávarpaði fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna málsins. 

Howard Berman, formaður utanríkisnefndar Bandaríkjaþings, hefur lagt fram frumvarp þar sem kveðið er á um að þessari skilgreiningu sé breytt. „Það er fáránlegt að Nelson Mandela skuli enn þurfa sérstaka undanþágu til að koma til Bandaríkjanna vegna hugrakkrar baráttu sinnar sem leiðtogi ANC. Þvílík vanvirðing,” sagði hann er hann lagði frumvarpið fram. 

Mandela, sem verður níræður á þessu ári, satt í 27 ár í fangelsi á tímum aðskilnaðarstefnunnar en varð fyrsti svarti forseti landsins eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert