Selveiðum að ljúka við Kanada

Selveiðiskip á leið á miðin í dag
Selveiðiskip á leið á miðin í dag Reuters

Lokahnykkur selveiða við Kanada er um helgina en veiðarnar eru mjög umdeildar og vofir yfir þeim að bann verði lagt við innflutningi á selaafurðum til ríkja Evrópusambandsins. Veiðarnar, sem hófust þann 28. mars, hafa tekið sinn toll en fjórir selafangarar létust við veiðarnar nýverið.

Veiðarnar hófust við St. Lawrence flóa en veiðimenn hafa fært sig um set og eru nú að veiðum vestan við Nýfundnaland en helstu veiðilendurnar eru norðan við Nýfundnaland en þar veiðast yfirleitt um tveir þriðju hluta kvótans, sem eru 275 þúsund dýr. 

Talsmaður kanadíska sjávarútvegsráðuneytisins, Larry Yetman, segir að aðstæður séu hins vegar ekki góðar til veiða í dag, sterkur vindur og snjókoma auk þess sem lítið sést af sel á veiðisvæðinu. Um 120 selveiðibátar eru á leið á miðin norðan við Nýfundnaland. Að sögn Yetman hefur verð á selskinni lækkað verulega í ár, í 33 Kanadadali á skinn en að meðaltali fengust 65 Kanadadalir fyrir skinnið í fyrra. Því taki færri þátt í veiðunum í ár en áður enda fylgir talsverð hætta veiðunum. 

Dýraverndunarsamtök hafa gagnrýnt veiðarnar harðlega og segja að harkalegum aðgerðum sé beitt við drápið. Hins vegar segja selafangarar og sjávarútvegsráðuneyti Kanada að ekkert sé að því hvernig selirnir eru drepnir auk þess sem veiðarnar skapi tekjur fyrir einangruð fiskveiðisamfélög í landinu.

Það eru einkum Norðmenn, Rússar og Kínverjar sem kaupa selskinnin en auk þess er eitthvað um útflutning á selspiki. Innflutningur á selaafurðum hefur verið bannaður í Bandaríkjunum frá árinu 1972 og íhugar Evrópusambandið nú að leggja bann við innflutningi.


Veiðimaður undirbýr dráp á sel
Veiðimaður undirbýr dráp á sel Reuters
Selfangarar að störfum
Selfangarar að störfum Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert