Raul Kastró hækkar eftirlaunin

Raul Castro heldur áfram að gera endurbætur á kúbönsku þjóðfélagi.
Raul Castro heldur áfram að gera endurbætur á kúbönsku þjóðfélagi. Reuters

Forseti Kúbu, Raul Kastró tilkynnti í dag að hann muni hækka eftirlaun sem ríkið greiðir út um allt að 20% og hækka laun saksóknara og dómara og allra sem starfa við dómstóla.

Sagði hann að breytingarnar myndu taka gildi í maí og að þær væru sanngjörn viðurkenning á framlagi vinnandi fólks sem hafi lagt mikið að mörkum til að styrkja efnahag Kúbu.

Þetta kom fram í grein í dagblaðinu Juventud Rebelde sem ríkið gefur út. Hann sagði að hækkunin á eftirlaununum væru réttlát viðurkenning fyrir þá sem hafa helgað bróðurpart sinnar starfsæfi til að vernda sósíalismann.

Kastró sagðist mundu hækka laun fólks sem starfar við dómstólana um allt að 55% vegna hlutverks þeirra í baráttunni við glæpi og vanrækslu og andþjóðfélagslegt athæfi.

Reiknað er með að um tvær milljónir Kúbana muni njóta góðs af þessum hækkunum sem muni kosta ríkið um 2,5 milljarða íslenskra króna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert