Tempelhofflugvöllur verður lagður af

Börn fylgjast með flugvél koma inn til lendingar á Tempelhofflugvelli …
Börn fylgjast með flugvél koma inn til lendingar á Tempelhofflugvelli árið 1948. AP

Aðeins 21,7% kosningabærra Berlínarbúa greiddu um helgina atkvæði með því, að Tempelhofflugvöllur verði rekinn áfram við borgina en 25% borgarbúa þurftu að greiða atkvæði á þann hátt til að breyta þeirri ákvörðun að leggja flugvöllinn af í nóvember. Kjörsókn var um 35,6%, mest í vesturhlutanum.

 Af þeim 35,6% borgarbúa sem tóku þátt í kosningunni voru um 60% á móti lokuninni en um 40% studdu lokun flugvallarins.

Hörð pólitísk barátta hefur verið háð undanfarna mánuði um framtíð Tempelhof, sem er einn af þremur flugvöllum Berlínar. Borgaryfirvöld vilja nota svæðið  undir aðra starfsemi en umferð um völlinn hefur dregist mjög saman á undanförnum árum. Þá er verið að byggja upp Schönefeldflugvöll og til stendur að leggja niður Tegelflugvöll.

Það er einkum af táknrænum ástæðum sem hluti Berlínarbúa vill halda í Tempelhofflugvöll. Hann var byggður upp á valdatíma nasista og var þá völlurinn aðalflugvöllur borgarinnar. Árin 1948 og 1949, eftir síðari heimsstyrjöld, lokuðu Sovétmenn fyrir birgðaflutninga á landi til vesturhluta Berlínar. Bretar og Bandaríkjamenn héldu á úti loftbrú frá Vestur-Þýskalandi til Vestur-Berlínar og á þeim tíma lentu flugvélar með vistir á 90 sekúndna fresti á Tempelhof.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert