Samið í Danmörku

mbl.is/Ómar

Samningar hafa náðst á milli danska ríkisins og starfsmannafélags opinberra starfsmanna í Danmörku (FOA) en samkvæmt þeim munu  félagsmenn fá allt að4200 danskar krónur í launahækkun á mánuði. Sérfræðingar segja þó miklar líkur á óánægju innan ákveðinna hópa innan félagsins þar sem færa megi rök að því að þeir sitji eftir. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Það er ekki ólíklegt að einhverjum félagsmönnum þyki á sér brotið. Fyrst var þeim lofað 5000 króna launahækkun á mánuði, síðan var það 15% og nú þurfa þeir að sætta sig við 12,8%. Það getur leitt til þess að félagsmenn hafni samningnum,” segir Jesper Due vinnumálasálfræðingur.

Dennis Kristensen, formaður félagsins, segir samninginn hins vegar góðan ekki síst fyrir starfsfólk í félags og heilbrigðisþjónustu. „Þetta er góð niðurstaða. Þetta er allt annar samningur en sá sem við höfðum í höndunum fyrir rúmum þremur vikum. Og það sem skiptir mestu máli fyrir FOA er það að við laun í hefðbundnum  kvennastéttum hafa nálgast mjög þau laun sem karlar eru að fá,” segir í yfirlýsingu hans.

Samkvæmt samningnum munu laun umönnunarfólks í félags og heilbrigðisþjónustu hækka um 3.000 til 4.200 danskar krónur á mánuði auk 0,7% framlags frá sveitarfélögum. Laun leikskólakennara munu hækka um 2.270 til og 4170 danskar krónur auk 0.7% og laun ófaglærðs starfsfólks á leikskólum mun hækka 2.570 til 2.760 krónur fram til ársins 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert