Herflugvél fær ekki að fara til Búrma

Munkar taka til við klaustur sem skemmdist er fellibylurinn Nargis …
Munkar taka til við klaustur sem skemmdist er fellibylurinn Nargis gekk yfir Búrma á laugardag. AP

Sendiherra Bandaríkjanna í Taílandi greindi frá því í morgun að enn hefði ekki fengist leyfi til að bandarísk herflugvél flytji matvæli og neyðargögn til Búrma en greint var frá því fyrr í morgun að herforingjastjórnin í Búrma hefur samþykkt að heimila í það minnsta einni herflugvél að fljúga þangað. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.  

Sendiherrann segir að ekki liggi fyrir hvort leyfi hafi upphaflega verið veitt en síðan dregið til baka eða hvort um misskilning hafi verið að ræða. Herforingjastjórnin í Búrma sætir nú vaxandi gagnrýni vegna tregðu sinnar til að heimila erlendum hjálparstofnunum að koma nauðstöddum í landinu til hjálpar.   

„Í morgun héldum við og taílenskir samstarfsmenn okkar að við hefðum fengið samþykki yfirvalda í Búrma fyrir því að C-130 vélin fengi að fara þangað,” segir Eric John sendiherra. „Ég veit ekki hvort fallið var frá því samkomulagi eða hvort um misskilning var að ræða. 

Staðfest hefur verið að 22.980 manns hafi látist er fellibylurinn Nargis gekk með mikilli flóðbylgju yfir bakka Irrawaddy- árinnar á laugardag en talið er hugsanlegt að allt að 100.000 hafi látið lífið í hamförunum.  

Paul Danahar, fréttamaður BBC sem staddur er í suðurhluta Búrma segir engin merki sjáanleg þar enn um að neyðarhjálp sé á leiðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert