Ákvörðun um atkvæðavægi áfall fyrir Clinton

Ákvörðun sérstakrar nefndar innan bandaríska Demókrataflokksins í gærkvöldi um að fulltrúar frá Flórída og Michigan fái aðeins hálft atkvæði hver á flokksþingi demókrata í sumar, er áfall fyrir Hillary Clinton þar sem nánast er nú tryggt að Barack Obama verði útnefndur forsetaefni flokksins.

Haldnar voru forkosningar í báðum ríkjunum snemma á þessu ári og fór Clinton með öruggan sigur af hólmi í þeim báðum; Obama var ekki einu sinni í kjöri í Michigan. Þá leit hins vegar út fyrir, að hvorugt ríkið fengi að senda fulltrúa á flokksþingið í sumar vegna þess að það óhlýðnaðist fyrirskipunum flokksstjórnarinnar um dagsetningar forkosninga.

Niðurstaða nefndarinnar þýðir, að Clinton fær 69 kjörmenn frá Michican og Obama 59 en hver þeirra fær aðeins hálft atkvæði. Í Flórída fær Clinton 105 kjörmenn en Obama 67. Þessir kjörmenn fá sömuleiðis hálft atkvæði. Því fær Clinton samtals 94,5 atkvæði til viðbótar en Obama 69.

Samkvæmt þessu þarf frambjóðandi 2118 kjörmenn á flokksþinginu til að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni. Obama vantar 65 kjörmenn til að ná þeirri tölu. Eftir er að kjósa í þremur ríkjum Puerto Rico,  Montana og Suður-Dakóta þar sem samtals eru kosnir 86 kjörmenn. Að auki eiga um 200 fulltrúar frá þessum ríkjum setu- og atkvæðisrétt á flokksþinginu og þeir gera greitt atkvæði eins og þeir vilja.

Clinton hefur gefið til kynna, að hún muni vísa niðurstöðu flokksnefndarinnar um atkvæðavægi fulltrúa í Michican til æðra úrskurðarvalds í flokknum. Telur Clinton, að Obama eigi ekki að fá neina kjörmenn frá ríkinu þar sem hann var ekki í kjöri í forkosningunum þar.

Útlit er fyrir að barátta Hillary Clinton sé töpuð.
Útlit er fyrir að barátta Hillary Clinton sé töpuð. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert