Tveir fangelsaðir vegna samkynhneigðar

Tveir spænskir karlmenn hafa verið handteknir í Gambíu, sakaðir um að hafa leitað á karlkyns leigubílstjóra. Forseti landsins, Yahya Jammeh, hótaði í síðasta mánuði að hálshöggva alla samkynhneigða í Gambíu og gaf þeim 24 klukkustundir til að yfirgefa landið. Sagði hann að framvegis yrðu strangari lög í Gambíu en í Íran.

Óttast ferðaþjónustan í landinu að þetta muni hafa skaðleg áhrif á iðnaðinn.

Yfirlýsingar forsetans hafa verið fordæmdar af ýmsum samtökum sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra en AP fréttastofan segir að æðsta ráð múslíma í landinu styðji forsetann og segi hann vera að taka siðferðislega afstöðu.

Fjöldi samkynhneigðra hefur flúið til Gambíu frá nágrannalandinu Senegal eftir fjöldahandtökur í kjölfar giftingar samkynhneigðra í febrúar. Bæði löndin eru að mestu leyti múslimatrúar.

Kynlíf samkynhneigðra er ólöglegt í Gambíu og þeir sem eru fundnir sekir um það eiga yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert