Obama heitir Ísrael stuðningi

Barack Obama, sem í nótt tryggði sér útnefningu sem forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins, hélt í dag ræðu þar sem hann fjallaði um stefnu sína í utanríkismálum. Hann hét m.a. Ísraelsmönnum stuðningi og sagðist myndu gera allt sem í hans valdi stæði til að hindra að Íranar smíði kjarnorkuvopn.

Obama ávarpaði Aipac, samtök gyðinga í Washington, og sagði að öryggismál Ísraels væru friðhelg og um þau yrði ekki samið.

Hillary Clinton flutti einnig ávarp við sama tækifæri og sagði að nýr forseti Demókrataflokksins myndi áfram styðja Ísrael. „Ég veit að Obama veit hvað er hér í húfi," sagði hún. „Það er heiður að eiga hann að vini og ég get talað skýrt: Obama öldungadeildarþingmaður verður góður vinur Ísraels."

Clinton hefur ekki formlega viðurkennt ósigur sinn í baráttunni fyrir útnefningu demókrata þrátt fyrir að Obama hafi tryggt sér meirihluta kjörmanna á væntanlegu þingi flokksins í ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert