Flugskeytum skotið frá Gasa

Ísraelskir hermenn beittu táragasi gegn palestínskum mótmælendum við bæinn Nilin …
Ísraelskir hermenn beittu táragasi gegn palestínskum mótmælendum við bæinn Nilin á Vesturbakkanum í gær. AP

Tveimur flugskeytum var skotið yfir landamæri Gasasvæðisins til Ísraels í morgun. Flugskeytum hefur verið skotið daglega yfir landamærin frá því á þriðjudag en vopnahlé Ísraela og Palestínumanna á Gasasvæðinu tók gildi á fimmtudag í síðustu viku. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.

Al Aqsa samtökin sem tengjast Fatah hreyfingu Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna,lýstu ábyrgð á flugskeytaárásunum í gær á hendur sér en Jihad samtökin stóðu á bak við slíkar árásir á þriðjudag. Segja talsmenn Al Aqsa árásunum í gær hafa verið ætlað að leggja áherslu á þá kröfu Palestínumanna að vopnahléið nái einnig til Vesturbakkans.

Talsmenn Hamas samtakanna, sem ráða Gasasvæðinu, segja vopnahléið enn í gildi, þrátt fyrir flugskeytaárásirnar, en að það sé ekki þeirra hlutverk að elta uppi liðsmenn annarra samtaka Palestínumanna sem brjóti gegn því.

Ísraelsk öryggismálayfirvöld ákváðu í gær að  halda landamærastöðvum á landamærum Ísraels og Gasasvæðisins lokuðum vegna flugskeytaárásanna en kveðið er á um það í vopnahléssamkomulaginu að landamærin verði opnuð eftir að hernaðaraðgerðum beggja aðila  hefur verið hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert