Í strætisvagni í dulargervi?

Serbneskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Radovan Karadzic, fyrrum leiðtogi Bosníu-Serba og eftirlýstur stríðsglæpamaður, hafi verið handtekinn í strætisvagni klæddur í dulargervi. Karadzic hafði verið á flótta í 13 ár þegar hann loks náðist.

Fram kemur í dagblaðinu Politka að hann hafi verið með sítt skegg og hár hans hafi verið litað svart. Hann var með tösku meðferðis, og svo virðist sem að hann hafi ætlað að yfirgefa Belgrad. Þá segir að Karadzic hafi ekki veitt viðnám þegar hann var handtekinn.

Yfirvöld í Serbíu hafa ekki greint frá handtökunni í smáatriðum. Það eina sem yfirvöld hafa sagt er að hann hafi verið handtekinn í gærkvöldi. Ekki var gefið upp hvar handtakan átti sér stað.

Á meðan nokkur dagblöð fullyrða að Karadzic hafi verið handtekinn í íbúð í miðborg Belgrad eru fleiri sem segja sömu sögu, þ.e. að hann hafi verið handtekinn í strætisvagni í úthverfi Belgrad.

Karadzic er sagður hafa þóst vera munkur undanfarin 13 ár. Hann er sagður hafa snoðað sig og falið sig í fjöllunum milli Bosníu, Serbíu og Svartfjallalands.

Þá var um tíma talið að hann hefði flúið til Rússlands og leitað skjóls meðal rússneskra þjóðernissinna, sem studdu Bosníu-Serba í Bosníustríðinu á árunum 1992-1995.

Radovan Karadzic (t.h.) sést hér með hershöfðingjanum Ratko Mladic árið …
Radovan Karadzic (t.h.) sést hér með hershöfðingjanum Ratko Mladic árið 1995. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert