Aðeins 9% Rússa telja að Medvedev haldi um stjórnartaumana

Dmitrí Medvedev tók við forsetaembættinu í maí.
Dmitrí Medvedev tók við forsetaembættinu í maí. Reuters

Tæplega 10% Rússa telja að Dimítrí Medvedev, forseti landsins, hafi haldi um stjórnartaumana í landinu á meðan einn af hverjum þremur telur að Vladimír Pútín, forsætisráðherra landsins, fari með völdin í landinu. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem var birt í dag.

Alls sögðu 9% aðspurðra að Medvedev færi með völdin. Í apríl sl. - skömmu eftir að hann var kosinn forseti - sögðust hins vegar 22% að Mevedev væri sá sem raunverulega héldi um stjórnartaumana.

36% aðspurðra segja hins vegar að Pútín sé í raun sá sem öllu ráði, en hann varð að láta af embætti sem forseti eftir að hafa þjónað tvö kjörtímabil. Í stjórnarskrá landsins er kveðið á um að menn megi ekki sitja lengur en það.

Tæplega helmingur, eða 47%, segja að þeir Medvedev og Pútín skipti valdinu jafnt á milli sín.

Medvedev tók við af Pútín, læriföður sínum, í maí. Vestrænir eftirlitsmenn gagnrýndu hins vegar kosningarnar og sögðu að valdinu hafi verið misbeitt.

Sumir fréttaskýrendur telja að líklegt að Pútín muni aftur setjast í forsetastólinn þegar Medvedev lætur af völdum.

Meirihluti aðspurðra, eða 82%, segja að Medvedev haldi stefnumálum Pútíns á lofti. Aðeins 13% segja að forsetinn hafi breytt um stefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert