Sakar Hvíta húsið um að falsa tengsl Íraks og 11. september

Frá hryðjuverkaárásinni í New York 11. september 2001.
Frá hryðjuverkaárásinni í New York 11. september 2001. Reuters

Í nýrri bók eftir Ron Suskind er fullyrt að Hvíta húsið hafi sent Bandarísku leyniþjónustunni CIA, skipun um að falsa bréf sem sýndi tengsl á milli Saddams Hussein, fyrrum leiðtoga Íraks, og hryðjuverkaárásanna í New York þann 11. september 2001.

Í bókinni „The Way of the World" er George Tenet, fyrrum yfirmaður CIA, sakaður um að hafa komið skipun Hvíta hússins áleiðis til annarra stjórnenda innan leyniþjónustunnar.  Hvíta húsið og Tenet hafa vísað ásökunum á bug. 

Suskind varði ásakanir sínar í útvarpsviðtali og sagði Hvíta húsið hafa látið Tenet fá bréf sem átti að endurskrifa með rithönd Tarir Jallil Habbush, fyrrum  yfirmanni leyniþjónustu í Írak.  Bréfið hafi verið skrifað á ritföng merkt írösku stjórninni til þess að láta það líta út fyrir að vera gilt.

Bréfið var skrifað í júlí árið 2003 og kom upp á yfirborðið í Bretlandi árið 2003.  Í bréfinu kemur fram að Mohammed Atta, einn af flugvélaræningjunum í hryðjaverkaárásunum 11. september, hafi dvalist í Írak og að hann hafi sýnt hollustu og sýnt vilja til þess að leiða teymi árásarmannanna. 

Talsmaður CIA segir bókina skáldskap og neitar því að leyniþjónustan hafi átt þátt í að falsa bréfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert