Eldflaugarmaðurinn hættir við

Svissneskur flugmaður, sem ætlaði í dag að fljúga yfir Ermarsund á sérútbúnum vængjum með þotuhreyfli, hætti við flugið og segir ástæðuna vera óhagstætt veður á Englandi.

Flugmaðurinn, sem heitir Yves Rossy, stefnir að því að verða fyrstur til að fljúga yfir sundið með þessum hætti en hann ætlar að fljúga sömu leið og franski flugmaðurinn Louis Bleriot, sem varð fyrstur til að fljúga yfir Ermarsund fyrir 99 árum.

Rossy sagði í dag, að það væri ekki öruggt að fljúga yfir sjóinn vegna þess að skyggnið væri svo slæmt og hann væri ekki búinn mælitækjum sem gerðu honum kleift að fljúga blindflug og finna lendingarstaðinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert