Rússneska keisarafjölskyldan fær uppreisn æru

Rússneska keisarafjölskyldan árið 1913.
Rússneska keisarafjölskyldan árið 1913.

Hæstiréttur Rússlands hefur úrskurðað að síðasti keisari landsins, Nikulás II, og fjölskylda hans hafi verið fórnarlömb pólitísks ofbeldis og skuli fá uppreisn æru.  Afkomendur keisarafjölskyldunnar haf lengi krafist slíkrar endurreisnar.

Nikulás, eiginkona hans Alexandra, fimm börn þeirra, líflæknir og þrennt af þjónustuliði þeirra, voru skotin til bana af uppreisnarmönnum bolsévika í júlí 1918. Lægri dómstóll hafði áður hafnað körfum um endurmat á drápinu í þá veru að um hreint morð hafi verið að ræða.

Rómanóv-ættin, rússneska keisarafjölskyldan, hefur þegar verið endurreist innan rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem hefur notið mikils uppgangs í landinu eftir fall Sovétríkjanna.

Mestan hluta síðustu aldar var hin opinbera söguskýring ráðamanna í Sovétríkjunum að Nikulás II keisari hafi verið harðstjóri og hann persónugerður sem tákn þess sem rutt skyldi út vegi með uppreisninni 1917.

Rómanóvarnir voru skotnir til bana án dóms og laga af aftökusveit í borginni Jekaterinburg í Úralhéraði.

Hæstiréttur sagði Nikulás II keisara og fjölskyldu hans hafa sætt „tilefnislausu ofbeldi“ og þau skyldu fá „uppreisn æru“, eins og segir í úrskurði dómsins. Var þar með snúið við úrskurði lægra dómsstigs frá í nóvember í fyrra að ekki skyldi endurreisa æru keisarafjölskyldunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert