Síðasti sjóliðinn af HMS Hood látinn

Þýska herskipið Bismarck eftir að það sökkti HMS Hood.
Þýska herskipið Bismarck eftir að það sökkti HMS Hood.

Tedd Briggs, einn þriggja sem komust lífs af þegar breska beitiskipinu HMS Hood  var sökkt á Grænlandssundi í seinni heimsstyrjöldinni, er látinn 85 ára að aldri. Alls fórust um 1400 manns þegar Hood sökk eftir sjóorrustu við þýska herskipið Bismarck.

Breska ríkisútvarpið BBC segir frá þessu í kvöld. Briggs var fyrst skráður í áhöfn Hood, sem var orrustubeitiskip Konunglega breska flotans, árið 1939. Þegar þýska herskipið Bismarck sást á Grænlandssundi í maí 1941 var Hood sent á svæðið til að freista þess að sökkva þýska skipinu. Þá var Briggs 18 ára.

Hood var stolt breska flotans og þeirra frægasta orrustuskip. Eftir stutta viðureign við  Bismarck að morgni 24. maí 1941, varð gríðarlega öflug sprenging um borð í Hood. Skipið rifnaði í tvennt og sökk á fáeinum mínútum. Aðeins þrír af rúmlega 1400 manna áhöfn komust lífs af. Breski flotinn komst að þeirri niðurstöðu að sprengikúla frá Bismarck hafi hleypt af stað sprengingu í skotfærageymslu Hood.

Fullyrt var, að orrustugnýrinn og sprengingin hafi heyrst til Vestfjarða og jafnvel alla leið til Reykjavíkur. Briggs sagði síðar í viðtali að hann hefði lent í sjónum og fundið að hann dróst sífellt lengra niður. „Brátt fannst mér sem ég gæti ekki meira. Og þá skyndilega var sem mér væri skotið upp á yfirborðið."

Briggs komst ásamt þeim William Dundas og Bob Tilburn upp á fleka. Þegar þeir voru komnir upp á flekana sáu þeir flugvélina Sunderland fljúga fyrir ofan þá.  Þeir veifuðu og lömdu sjóinn til að vekja athygli á sér, en flugmennirnir tóku ekki eftir þeim og flugu leiðar sinnar.

Þeir reyndu að halda hópinn á flekunum, en kuldinn var of mikill, svo að þeir urðu loppnir og flekana rak sundur. Tilburn trúði því, að hann mundi deyja og hann minntist þess að hafa lesið, að menn lokuðu augunum, þegar þeir væru að krókna og vöknuðu síðan aldrei framar. Hann taldi það þægilegan dauðadaga, lokaði augunum, en hélt sér þó vakandi af þrákelkni. Tveimur klukkustundum síðar var þeim bjargað um borð í breska tundurspillinn Electra.

Briggs hélt áfram í sjóhernum og þjónaði þar raunar í 30 ár.  Dundas lést árið 1965 og Tilburn árið 1995. BBC hefur eftir Briggs, að hann hafi aldrei litið á sig sem hetju heldur hefði hann aðeins komist lífs af.

Flak Hood fannst árið 2001 á 3 km dýpi á hafsbotni á milli Grænlands og Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert