Martti Ahtisaari fær friðarverðlaun Nóbels

Martti Ahtisaari.
Martti Ahtisaari. Reuters

Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands, hlaut í dag friðarverðlaun Nóbels fyrir mikilvægt starf hans í yfir þrjá áratugi og í nokkrum heimsálfum til að leysa alþjóðlegar deilur.

Ahtisaari, sem er 71 árs, starfaði fyrst sem grunnskólakennari en hóf síðan störf hjá finnska utanríkisráðuneytinu árið 1965. Hann var í 20 ár í utanríkisþjónustunni og var fyrst sendiherra Finnlands í Tansaníu og síðan hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.

Ahtisaari starfaði hjá SÞ í fjögur ár en hélt heim 1991 og var ráðuneytisstjóri finnska utanríkisráðuneytisins til 1994 þegar hann var kjörinn forseti landsins og því embætti gegndi hann í eitt sex ára kjörtímabil en gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hann hafnaði einnig tilboðum um alþjóðleg embætti en opnaði þess í stað eigin skrifstofu í Helsinki.

Ahtisaari kom fyrst að lausn alþjóðlegra deilumála þegar hann var formaður starfshóps um  Bosníu-Herzegovínu á friðarráðstefnu um Balkanríkin á árunum 1992-1993.  Hann var einnig árið 2005 skipaður sérstakur erindreki SÞ í viðræðum um framtíð Kosovo.

Hann hefur einnig komið að því að leysa deilur milli uppreisnarmanna stjórnvalda í Aceh-héraði í Indónesíu en árið 2005 tókst að binda enda á þriggja áratuga borgarastyrjöld þar.

Á síðasta ári hafði skrifstofa Ahtisaaris milligöngu um leynilegar viðræður milli súnní- og sjía-múslima um frið.  

Meðal þeirra, sem fengið hafa friðarverðlaun Nóbels, eru Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, Nelson Mandela og  F.W. de Klerk, fyrrum forsetar Suður-Afríku, og Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert