Colin Powell styður Barack Obama

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Reuters

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti í dag opinberlega yfir stuðningi við Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata. Powell, sem er repúblikani, var um tíma utanríkisráðherra í stjórn Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta.

Powell kom fram í þættinum Meet the Press á NBC sjónvarpsstöðinni í dag og sagði að Obama uppfyllti kröfur um leiðtoga vegna þess að hann gæti hrifið fólk með sér, vegna þess hvernig hann hefði háð kosningabaráttu sína og vegna þess að hann reyndi að ná til allra Bandaríkjamanna.

„Ég held að hann verði forseti umbreytinga. Af þeirri ástæðu mun ég kjósa Barack Obama, öldungadeildarþingmann," sagði Powell. Hann bætti við, að ef Obama sigrar í kosningunum 4. nóvember ættu allir Bandaríkjamenn að fyllast stolti, ekki aðeins Bandaríkjamenn sem eru af afrískum uppruna.  

Powell, sagðist hafa áhyggjur af þeirri hægrisveiflu, sem Repúblikanaflokkurinn hefði tekið undir forustu Johns McCains, forsetaefnis flokksins, og Söruh Palin, varaforsetaefnis flokksins. Sagði Powell, að Palin væri ekki hæf til að verða forseti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert