Hart barist í Austur-Kongó

Kona á flótta til Goma með barn sitt á bakinu.
Kona á flótta til Goma með barn sitt á bakinu. Reuters

Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í dag að draga burt um 50 hjálparstarfsmenn sína á baradagasvæðunum í Austur-Kongó, er áður nefndist Zaire. Fólkið hefst nú við í bænum Rusthuru í austanverðu landinu. Hermenn uppreisnarmanna beita stórskotaliði á svæðinu sem er þakið frumskógi. Óttast er að ný stórstyrjöld sé að hefjast í landinu.

 Milljónir manna létu lífið í margra ára borgarastríði í A-Kongó er lauk fyrir nokkrum árum með samningum og kosningum. SÞ hafa mörg þúsund manna friðargæslulið í landinu en þar búa liðlega 50 milljónir manna. Tugþúsundir manna hafa flúið heimili sín vegna bardaganna síðustu daga en uppreisnarmenn sækja nú í átt að Goma, höfuðstað í austasta héraði landsins.

 Sums staðar hefur fólk kastað grjóti í brynvagna herliðs SÞ sem það segir hafa brugðist almenningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert