Frænka Obama er ólöglega í Bandaríkjunum

Húsið í Boston þar sem Zeituni er sögð búa.
Húsið í Boston þar sem Zeituni er sögð búa. AP

Frænka Baracks Obama, forsetaframbjóðanda demókrata í Bandaríkjunum, hefur búið ólöglega í Bandaríkjunum frá því dómari hafnaði ósk hennar um hæli í landinu fyrir fjórum árum. Konan er frá Kenýa en hefur búið í húsi í eigu ríkisins í Boston nokkur undanfarin ár.

Konan heitir Zeituni Onyango og er 56 ára en Obama vísar til hennar sem Zeituni frænku í æviminningum sínum. Dómari í innflytjendamálum hafnaði ósk hennar um hæli fyrir fjórum árum og skipaði henni að fara úr landi að því er AP fréttastofan hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum. 

AP segir að Onyango hafi brotið innflytjendalög með því að fara ekki strax úr landi en slík mál séu þó ekki brot gegn hegningarlögum. Margir sérfræðingar telja, að allt að 10 milljónir innflytjenda í Bandaríkjunum séu í samskonar stöðu. 

Svo virðist sem mál Onyango hafi leitt til þess, að fyrirskipun var gefin til allra starfsmanna Innflytjenda- og tollaskrifstofunnar  í Bandaríkjunum um að brottvísanir úr landi fram að forsetakosningunum á þriðjudag þurfi að fá staðfestingu æðstu yfirmanna stofnunarinnar. AP segir, að þessi óvenjulega fyrirskipun bendi til þess, að bandaríska ríkisstjórnin vilji fara varlega í ljósi þeirra pólitísku afleiðinga, sem málið gæti haft svo stuttu fyrir forsetakosningarnar.

Kenýa er í austurhluta Afríku milli Sómalíu og Tansaníu. Þar hefur ríkt ófriður á undanförnum árum og talið er að 1500 manns hafi látið lífið í átökum sem urðu í kringum síðustu áramót.

Ekki er ljóst hvers vegna Onyango óskaði eftir hæli í Bandaríkjunum og ekki heldur hvers vegna því var hafnað.

Fyrstu fréttir um þessa frænku Obama bárust í gær þegar starfsmenn forsetaframboðsins staðfestu við breska blaðið The Times, að Onyango, væri frænka Obama í föðurætt.

Ekki er ljóst hvers vegna Onyango hefur getað búið í opinberu húsnæði undanfarin fimm ár með brottvísunarkröfu yfir sér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert