Öruggasta forustan síðan 1996

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Forusta forsetaframbjóðandans Barack Obama á repúblikanann John McCain er sú öruggasta frá því demókratinn Bill Clinton sigraði Bob Dole með yfirburðum 1996, að mati bandarísks stjórnmálafræðings.

Þannig segir Andrew Kohut, sérfræðingur hjá Pew Research Center, að jafn stöðug og örugg forusta hafi ekki sést síðustu dagana fyrir kosningar síðan Clinton tryggði sér endurkjör fyrir tólf árum.

Samkvæmt könnun Pew Research Center hefur bilið á milli Obama og McCain þó minnkað úr um 15 prósentum frá því í síðustu viku í um 7 prósent nú.

Segir Kohut margt skýra minnkandi bil á milli frambjóðendanna tveggja.

Fyrir það fyrsta hafi McCain aukið fylgi sitt á meðal hvítra og óháðra kjósenda og á meðal meðaltekjufólks. Þá segist fleiri aðspurðra í hópi skráðra og líklegra kjósenda ætla að kjósa McCain en áður, þegar spurt er um afstöðu þeirra í könnunum.

Kohut bendir hins vegar á þá sögulegu staðreynd að stuðningur á meðal líklegra kjósenda sé gjarnan mælikvarði á árangur frambjóðenda þegar stóri dagurinn rennur upp. Bendir hann á að 36 prósent líklegra kjósenda séu mjög fylgjandi Obama, á meðan 24 prósent segjast mjög á bandi McCain. Að mati Kohut ætti þetta að vera áhyggjuefni fyrir repúblikana.

Obama mælist með umtalsvert meira fylgi í nær öllum könnunum og er forskotið að meðaltali 6,4 prósent, nú þegar tveir dagar eru til kosninga á þriðjudag, að því er fram kemur á vef Realclearpolitcs.com.

Ohio er eitt af lykilríkjunum í kosningunum. Það er því athyglisvert að í könnun dagblaðsins Columbus Dispatch hefur Obama mælst með stöðugt sex prósentustiga forskot á McCain. Bendir blaðið á að ef Obama fái yfir 50 prósent atkvæða verði það í fyrsta skipti sem demókrati afreki slíkt í sambandsríkinu frá því demókratinn Lyndon B. Johnson sigraði þar 1964, árið eftir að John F. Kennedy var myrtur.

Samkvæmt könnun sjónvarpsstöðvarinnar CBS styðja 54 prósent líklegra kjósenda Obama, samanborið við 41 prósent fylgi hjá McCain. Könnunin, sem var gerð dagana 28-31 október, náði til 747 líklegra kjósenda.

Þá má nefna að í könnun Las Vegas Review-Journal mælist fylgi Obama 47 prósent, fylgi McCains 43 prósent. Á vef New York Times kemur fram að forskot Obama hafi verið fyrst 10, svo 8 og loks 5 prósent dagana 26-28 október, sem styður að bilið sé að minnka.

Samkvæmt kjörmannakorti New York Times er Obama ýmist öruggur eða nokkuð öruggur með 291 kjörmann. Segir blaðið óvissu um hvoru megin 84 kjörmenn muni falla og að McCain sé ýmist nokkuð öruggur eða öruggur með 163 kjörmenn.

Til að verða forseti þarf frambjóðandi að tryggja sér 270 kjörmenn af 538.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert