Þjóðarleiðtogar fagna Obama

Nicolas Sarkozy tekur forsetanum nýja opnum örmum.
Nicolas Sarkozy tekur forsetanum nýja opnum örmum. Reuters

Leiðtogar fjölmargra ríkja heims hafa sent Barack Obama heillaóskaskeyti eftir kjör hans í embætti forseta á þriðjudag. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði leiðtoganna deila mörgum gildum.

Hu Jintao Kínaforseti kvaðst hlakka til viðræðna við Obama, en leiða má líkur að því að Kína muni vega þyngra á fyrsta kjörtímabili hans en í stjórnartíð George W. Bush forseta.

Nicolas Sarkozy, sem kom óbeint við sögu í kosningunum, þegar hrekkjalómur þóttist vera forsetinn í kvikyndislegu samtali við Söruh Palin, varaforsetaefni repúblikana, sagði úrslitin vekja „gífurlegar vonir“.

Til að setja þessi orð í samhengi sögðust um og yfir 90 prósent Frakka vonast eftir sigri demókrata í forsetakosningunum.

Þá hafa þau orð Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að hann hlakki til nýs skeiðs alþjóðasamskipta, þar sem brúarsmíði og alþjóðasamvinna er í forgrunni, athygli, enda gáfu margir samstarfsmanna Bush forseta lítið fyrir stofnunina á fyrra kjörtímabili hans, 2001 til 2005.

Þýskur almenningur er almennt bjartsýnn á bætt samskipti Þýskalands og Bandaríkjanna, sem þau ummæli Donalds Rumsfelds, að landið tilheyrði „gömlu Evrópu“, urðu ekki til að bæta.

Kvaðst Angela Merkel Þýskalandskanslari hlakka til nánara og trausts sambands Evrópu og Bandaríkjanna.

Þegar Obama kom fram við Brandenborgarhliðið í júlí hlýddu 200.000 Berlínarbúar á frambjóðandann, þar sem John F. Kennedy vann hug og hjörtu áheyrenda nokkrum áratugum áður.

En eins og Philip H. Gordon, aðalráðgjafi Obamas í Evrópuferð hans í sumar, sagði í samtali við Morgunblaðið, þá leit framboð demókratans svo á að Berlínarfundurinn myndi falla Bandaríkjamönnum vel í geð, enda langþreyttir á óvinsældum landsins.

Það sjónarmið var þó umdeilt og vildu sumir meina að Obama hefði slegið feilspor með því að koma fram eins og leiðtogi landsins, fimm mánuðum fyrir kosningarnar á þriðjudag.

Utanríkisstefna George W. Bush var einna síst umdeild í Afríku, þar sem hann hefur hlotið lof fyrir stuðning við baráttuna gegn alnæmi.

Endurspeglast þessi staðreynd ef til vill í því að Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu, lét þau orð falla að íbúar álfunnar ættu ekki að búast við dramatískri breytingu á stefnu Bandaríkjanna í málefnum Afríku, einkum með hliðsjón af efnahagsþrengingunum vestanhafs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert