Livni hafnar landamærunum frá 1967

Tzipi Livni og Ehud Olmert
Tzipi Livni og Ehud Olmert Reuters

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels og formaður stjórnarflokksins Kadima, lýsti því yfir í morgun að hún telji sig ekki bundna af yfirlýsingum Ehud Olmerts, fráfarandi forsætisráðherra, sem hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að Ísraelar fallist á að miða landamæri ríkisins við það sem var fram til ársins 1967. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Sem formaður Kadima er ég ekki bundin af yfirlýsingum fráfarandi forsætisráðherra, heldur stefnuskrá Kadima og það er hún sem ákvarðar það hvernig haldið verður á samningaviðræðum af okkar hálfu,” sagði hún í útvarpsviðtali í morgun.

„Það er ekki bara hægt að kasta lyklinum yfir á hinn bakkann og vonað það besta, sérstaklega ekki í Júdeu og  Samaríu. Við viljum tryggja öryggi Ísraelsríkis og það er ekki hægt að gera það alls staðar með þessum hætti. Við þurfum að binda enda á deilurnar við Palestínumenn og gæta öryggis borgaranna.

Olmert hvatti til þess á minningardegi Yitzhak Rabin, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, í gær að Ísraelar miði framtíðarlandamæri ríkis síns og ríkis Palestínumanna við það sem var fram til ársins 1967. Enginn leiðtogi Ísraela hefur áður lýst stuðningi við slíkt með jafn afgerandi hætti. Þá þykja yfirlýsingar hans koma sér illa fyrir Kadima flokkinn í aðdraganda kosninga í landinu þar sem þær gefi Likud-flokknum höggstað á Olmert og Kadima um leið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert