Baksvið: Hverjir eru sómölsku sjóræningjarnir?

Sómalskir sjóræningjar gerast stöðugt stórtækari og óhjákvæmilega eru augu heimsbyggðarinnar og helstu fjölmiðla farin að beinast að þessu fyrirbæri sem þessi nútíma sjóránin eru. Hverjir eru sjóræningjarnir og hvaðan koma þeir? er spurt.

Á BBC-vefnum segir að þeir komi flestir frá Puntland-héraði í norðanverðri Sómalíu, og það má þekkja þá frá öðrum á því hversu mikið fé þeir hafa á milli handa.

„Þeir eiga peninga, þeir hafa völd og eflast með hverjum deginum,“ hefur BBC eftir einum íbúa Garowe, höfuðborgar svæðisins. „Þeir giftast fallegustu stúlkunum, byggja stærstu húsin, eru á nýjum bílum og með nýjar byssur.

„Sjórán njóta hér á margan hátt félagslegrar velvildar. Þau eru að komast í tísku.“

Sjóræningjarnir sjálfir eru flestir á aldrinum frá tvítugu og upp 35 ára aldur, og þeir stunda þessa iðju fyrst og fremst vegna peninganna. Lausnarféð sem fæst er ríkulegt í landi þar sem upp undir helmingur þjóðarinnar dregur fram lífið á utanaðkomandi matargjöfum vegna stríðsátaka sem staðið hafa yfir í landinu linnulítið síðust 17 árin.

Flest skipin eru tekin og áhafnir þeirra yfirbugaðar þar sem þau fara um fjölfarnar skipaleiðir Adenflóa og lausnargjaldið sem fæst að meðaltali fyrir skip er um 2 milljónir dala, um 275 milljónir króna.

Samhentur hópur

Þess er gætt að vel sé hugsað um gíslana, og er sagt skýra einnig mikla samheldni sjóræningjanna. Aldrei verði vart við að þeir eigi í erjum innbyrðis vegna þess að væntingar um peningana þjappi þeim saman.

Fréttaritari BBC á þessum slóðum segir að sárasjaldan sjáist særðir sjóræningjar og engar fréttir eru um að lík þeirra hafi fundist sjórekin. Í ljósi sagna af ættbálkaerjum og átökum gengja aftur í aldir þykir þetta talsvert afrek.

Jafnframt segir BBC að þetta kunni að vera ástæða þess að fréttum af vopnuðum átökum um borð í nýjasta herfanginu, úkraínska skipinu MV Faina, drekkhlöðnu af rússneskum skriðdrekum, var algjörlega hafnað af talsmanni ræningjanna.

Fyrir liggur að alls voru 62 menn í genginu sem réðst um borð í MV Faina. Venjulega eru slík gengi sett saman af þrenns konar hópum. Í fyrsta lagi fyrrverandi fiskimenn sem eru sagði heilarnir á bak við aðgerðir af þessu tagi vegna þekkingar sinnar á sjónum. Í öðru lagi eru það uppgjafahermenn sem eru kraftakarlarnir í hópnum enda hafa þeir barist með aðskiljanlegum stríðsherrum Sómalíu á liðnum árum. Loks eru það tæknimennirnir, þeir sem eru tölvunördar og kunna á öll tækin sem þurfa að virka í sjóráni - gervihnattasímar, staðsetningartæki og háþróuð stríðstæki.

Þessir þrír hópar deila með sér æ stærri ólöglegum hagnaði því að lausnargjaldið er greitt í beinhörðum peningum af útgerðarfélögunum. Hugveitan Chatham í Bretlandi hefur reiknað úr af sjórán undan ströndum Sómalíu hafi hingað til kostað um 30 milljónir dala, eða röska 4 milljarða króna. Skýrsla hugveitunnar segir einnig að sjóræningjarnir verði stöðugt aðgangsharðari og kröfuharðari - sem upphaflega krafa fyrir MV Faina upp á 22 milljónir dala er til vitnis um en hún er reyndar sögð hafa verið lækkuð í 8 milljónir dala.

Sjóræningjarnir eru sagði fá mest af vopnum sínum frá Yemen handan Adenflóans en einnig komi talsvert af búnaðinum frá vopnasölum í höfuðborg Sómalíu, Mogadishu. Lengi hefur verið orðrómur um að athafnamenn í Dúbæ-furstadæminu fjármagni vopnakaup sjóræningjanna, en að því er fréttaritari BBC í Sómalíu segir hefur nú dæmið snúist við - í lánsfjárkreppunni eru það athafnamennirnir sem biðja sjóræningjana um lán.

Ný yfirstétt með nýjan lífsstíl

Velgengni af þessu tagi hafa mikil áhrif á ungmenni í Puntland-héraðinu sem sjá ekki mörg önnur atvinnutækifæri á þessu stríðshrjáða svæði. Tilhneigingin er líka sú að þegar sjóræningi er kominn í sæmileg efni tekur hann sér aðra og þriðju eiginkonuna - gjarnan mjög ungar konur frá fátækum hirðingjaættbálkum og eru annálaðar fyrir fegurð.

Það eru þó ekki allir eins hrifnir af þessari nýju yfirstétt Sómalíu. Einn íbúinn í Garowe segir sjóránin hafa ýmsa fylgikvilla fyrir daglegt líf fólks á þessum slóðum. Í fyrsta lagi sé löggæslan vanmáttug til að fást við hundruð vopnaðra manna sem komi til að ganga til liðs við sjóræningjana. Þeir hafi líka keyrt upp verðlag á svæðinu þar sem þeir dæli háum fjárhæðum dollara inn á hið smá hagkerfi svæðisins og valdi alls kyns sveiflum á gjaldmiðlunum.

Lífsstíll sjóræningjanna fer einnig fyrir brjóstið á mörgum. Þeim fylgi fíkniefnaneysla og áfengisdrykkja sem er ekki vel liðin á þessum slóðum.

Sjórán sem gróðavegur eru tiltöluleg nýlunda en sjórán undan ströndum Sómalíu hafa verið vandamál í upp undir áratug - eða frá því að sómalskir fiskimenn hættu að geta framfleytt sér og sínum af veiðunum. Gamalgrónar veiðiaðferðir þeirra stóðust ólöglegum veiðum togara í fiskveiðilögsögunni einfaldlega engan snúning.

Sjóránin hófust undan suðurströnd landsins en byrjuðu að færast norður eftir á síðasta ári og sjóræningjagengin í Adenflóa eru nú margbrotnari en áður.

Heimildarmaður BBC í Garowe segir þennan hóp þó ekki líta á sig sem sjóræningja.

„Sjóræningjavandinn á sér rætur í ólöglegum fiskveiðum. Þeir segjast vera að stunda strandgæslu.“

Smábátar sómalskra sjóræningja við hlið MV Faina, eitt 17 skipa …
Smábátar sómalskra sjóræningja við hlið MV Faina, eitt 17 skipa í haldi sjóræningja með alls um 300 manns í gíslingu. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert