Bróðir John Gotti dæmdur fyrir morðtilraun

Vincent Gotti, bróðir hins alræmda John Gotti, mafíuforingja í New York hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir morðtilraun. Vincent reyndi að myrða mann sem hann fullyrti að héldi við eiginkonu hans.

John Gotti eldri var einn þekktasti glæpaforingi í Bandaríkjunum á ofanverðri 20. öld en hann stýrði svonefndri Gambinofjölskyldu, einni af fimm mafíufjölskyldum í New York. Hann var handtekinn og dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir margvíslegar sakir, þar á meðal 13 morð. Gotti eldri lést í fangelsi árið 2002.

Vincent Gotti sem nú er 56 ára, var ávallt talinn svarti sauðurinn í Gambinofjölskyldunni. Sakarferill hans nær allt aftur til ársins 1973 en sökum eiturlyfjafíknar Vincent var hann illa séður í efstu lögum mafíufjölskyldunnar.

Vincent fór ásamt Richard Gotti, rúmlegum fertugum frænda sínum, að heimili Angelo Mugnolo, smurkringlusölumanns. Gotti taldi að Mugnolo héldi við konu hans og skaut hann þremur skotum. Mugnolo lifði árásina af.

Vincent Gotti bað fjölskyldu sína þráfaldlega afsökunar þegar dómur var kveðinn upp og sagðist fullur eftirsjár.

Vincent og frændi hans Richard fengu báðir þriggja ára fangelsisdóm fyrir morðtilraunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert