Martha von Bülow látin

Martha von  Bülow, sem lá í dái í nærri þrjá áratugi, lést í gær á hjúkrunarheimili í New York, 76 ára að aldri. Martha, sem jafnan var nefnd Sunny, fannst meðvitundarlaus í íbúð sinni á Rhode Island í desember 1980. Claus von Bülow, eiginmaður hennar, var ákærður fyrir að reyna að myrða hana með insúlínsprautum en sýknaður í frægum réttarhöldum.

Fjallað var um málið í Hollywoodmynd, Reversal of Fortune, þar sem Jeremy Irons lék Claus og Glenn Close lék Sunny. Myndin var byggð á bók eftir lögmanninn  Alan Dershowitz, sem varði Claus í einum málferlunum. 

Sunny var dóttir ríkra foreldra. Hún giftist austurríska prinsinum Alfred von Auersperg árið 1957. Þau eignuðust tvö börn skildu átta árum síðar. Árið 1966 giftist hún Claus von  Bülow, sem er af dönsku og þýsku ætterni, fæddur í Kaupmannahöfn. Þau eignuðust eina dóttur.

Í desember 1980 höfðu von  Bülowhjónin verið í samkvæmi þegar Sunny veiktist. Hún var þá 48 ára gömul. Læknar sögðu að hún hefði orðið fyrir heilaskemmdum. Hún komst aldrei til meðvitundar og var það sem eftir var ævinnar  í öndunarvél.

Börn Sunny af fyrra hjónabandi héldu því fram að  Claus von  Bülow hefði reynt að myrða hana til að komast yfir  auðæfi hennar. Saksóknarar voru sama sinnis og ákærðu hann fyrir manndrápstilraun með því að sprauta hana með insúlíni.

Alan Dershowitz, sem m.a. kom til Íslands í maí sl. og hélt fyrirlestur, hélt því hins vegar fram að Sunny von  Bülow, sem þjáðist af sykursýki, hefði verið áfengissjúklingur sem neytti lyfja í miklum mæli og það hefði valdið heilaskemmdunum.

Réttarhöldin vöktu mikla athygli en meðal þeirra sem báru vitni voru rithöfundurinn Truman Capote og Joanne Carson, eiginkona sjónvarpsmannsins Johnny Carson.

Von  Bülow var sakfelldur árið 1982 en síðan sýknaður fyrir áfrýjunardómstóli. Hann var ákærður á ný en sýknaður.

Stjúpbörn von  Bülows höfðuðu þá einkamál á hendur honum og urðu lyktir þess þær að von Bülow féllst á að gera ekki kröfur í bú konu sinnar,  skilja við hana og yfirgefa landið. Talið var að eignir Sunny næmu 40 milljónum dala. Hann býr nú í Lundúnum þar sem hann skrifar bókagagnrýni. 

Martha von Bülow.
Martha von Bülow. AP
Claus von Bülow í réttarsal árið 1982.
Claus von Bülow í réttarsal árið 1982. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert