Nýr seðill: 500.000.000 dollarar

Íbúi höfuðborgarinnar Harare sýnir nýju seðlana í dag
Íbúi höfuðborgarinnar Harare sýnir nýju seðlana í dag PHILIMON BULAWAYO

Óðaverðbólgan í Simbabve hefur nú náð nýjum hæðum enn á ný, þegar seðlabanki landsins fann sig knúinn til að prenta nýjan peningaseðil með áður óþekktri upphæð á stökum seðli: 500.000.000 dollara. Fjármálaráðherra landsins, Samuel Mumbengegwi, tilkynnti þetta í dag og eru seðlarnir komnir í umferð.

Verðbólgan hefur hækkað verðlagningu í landinu svo mjög að peningar hafa svotil algjörlega misst verðmæti sitt svo annað eins hefur sjaldan sést áður. Aðeins nokkrir dagar eru síðan seðlabankinn tilkynnti um prentun nýrra 50 og 100 milljóna seðla, en þeir hafa ekki dugað til við að greiða úr löngum röðum sem myndast daglega við banka til að fá reiðufé. Sumir sofa við bankann á næturna til vera vissir um að komast að tímanlega til að fá reiðufé daginn eftir.

Nýji 500 milljóna seðillinn er andvirði u.þ.b. 8 Bandaríkjadollara, eða tæpra þúsund íslenskra króna á gengi dagsins. Hann ætti að duga íbúum landsins til að kaupa um 8 hleifa af brauði eða svo, en verðlagning breytist nánast daglega í Simbabve. Síðast í ágúst voru 10 núll sleginn aftan af gjaldmiðli landsins, en það hefur verið gert reglulega á síðastliðnum 2 árum.

Simbabve státaði eitt sinn af einu blómlegasta hagkerfi í Afríku, en er nú fast í viðjum verstu efnahagslegu og samfélagslegu krísu í sögu landsins. Í ofanálag við kreppuna er þjóðin þjökuð af kólerufaraldri sem dregið hafa um 800 manns til dauða. Ríkisrekin sjúkrahús hafa verið lokuð í rúman mánuð og í ofanálag telja Sameinuðu þjóðirnar að um 5 milljónir manna þurfi sárlega á mataraðstoð að halda. Staðan er því gjörbreytt frá þeim tíma þegar íbúar Simbabve sendu matarpakka frá landinu til hjálpar fátækari nágrönnum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert