Langflestar fóstureyðingar á Grænlandi

Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. Ómar Óskarsson

Töluverður munur er á milli Norðurlandanna varðandi fjölda fóstureyðinga. Grænland sker sig úr, en þar eru þær hlutfallslega flestar – alls 1.030 á hverja 1.000 lifandi fædda. Á Íslandi hins vegar eru framkvæmdar 205 fóstureyðingar á hverja 1.000 lifandi fædda sem er meira en í Finnlandi og Færeyjum en heldur minna en í Danmörku, Álandseyjum, Noregi og Svíþjóð.

Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðistölfræði og vitnað í rit Norræna heilbrigðistölfræðiráðsins (NOMESCO).

Fóstureyðingar eru algengastar á öllum Norðurlandanna hjá konum á aldrinum 20–24 ára. Hins vegar gangast hlutfallslega fæstar konur í elsta aldurshópnum, 45–49 ára, undir fóstureyðingu. Öll Norðurlöndin eiga þetta sammerkt.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins kemur fram að í flestum hinna norrænu landa hafi fóstureyðingar verið löglegar síðan á miðjum áttunda áratugnum. „Nokkuð er þó mismunandi hvaða skilyrði þurfa að liggja til grundvallar áður en slík aðgerð er framkvæmd. Þannig er í Svíþjóð heimilt að fara í fóstureyðingu fram að 19. viku meðgöngu en á hinum Norðurlöndunum er miðað við að slíkar aðgerðir skuli ekki framkvæmdar eftir 12 vikna meðgöngu. Fóstureyðingar eru þó heimilaðar af læknisfræðilegum ástæðum eftir 12–18 vikna meðgöngu og þá í kjölfar álits sérfræðinga. Í Danmörku, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð geta þungaðar konur ákveðið að fara í fóstureyðingu upp á eigin spýtur, en í Færeyjum, Finnlandi, Álandseyjum og á Íslandi verður að liggja fyrir rökstudd greinargerð læknis og/eða félagsráðgjafa áður en aðgerð er framkvæmd,“ segir í Talnabrunni.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert