Umdeildur læknir á Gaza

Rústir leikskóla á Gaza eftir árásir Ísraela í dag.
Rústir leikskóla á Gaza eftir árásir Ísraela í dag. Reuters

Ísraelar hafa hindrað vestræna fréttamenn í að komast til Gaza en þar eru þó fulltrúar BBC og arabísku sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera. Meiri athygli og hrylling hafa vakið frásagnir norska læknisins Mads Gilbert sem fer frá svæðinu í dag með félaga sínum, Erik Fosse.

 Birst hafa viðtöl við Gilbert í fréttamiðlum um allan heim, þ. á m. CNN og Sky. Hann hefur sagt í sjónvarpsviðtali að Ísraelar reyni af ásettu ráði að drepa óbreytta borgara en einbeiti sér ekki að því að fella Hamas-liða.

Enginn hefur efast um að Gilbert og Fosse, sem starfa á vegum hjálparstofnunarinnar Norwac, hafa unnið þrekvirki við að hjálpa Palestínumönnum í neyð. En sumir efast um að rétt sé að nota þá sem fréttamenn og sumt af því sem Gilbert segir um skort á lyfjum og fleiri gögnum virðist vera nokkrar ýkjur og jafnvel uppspuni þótt enginn dragi í efa að hörmungar fólksins séu víða skelfilegar. Meðal annars hafa bloggarar gagnrýnt Verdens Gang harkalega fyrir að nota ummæli hans gagnrýnislaust eins og um hlutlæga fréttamennsku sé að ræða.

Gilbert hefur um árabil verið eitilharður talsmaður málstaðar Palestínumanna í Noregi og hefur m.a. fordæmt samtökin Lækna án landamæra fyrir að taka ekki pólitíska afstöðu til ýmissa alþjóðlegra deilna.

Margir rifja nú upp á bloggsíðum að Gilbert hafi ekki viljað fordæma morðin á þúsundum óbreyttra borgara í árásunum á Bandaríkin í september 2001.  Dagbladet í Noregi ræddi við lækninn skömmu eftir hryðjuverkin. Hann sagði árásirnar ekki koma á óvart þegar höfð væri í huga stefna Vesturveldanna síðustu áratugi og þær þjáningar sem Bandaríkjamenn hefðu valdið.

 ,,Líta verður á dauða þessara 5.000 í því samhengi," svaraði Gilbert ,,Ef Bandaríkjastjórn hefur lagalegan rétt til að fleygja sprengjum á óbreytta borgara og drepa þá í Írak er einnig fyrir hendi siðferðislegur réttur til að ráðast á Bandaríkin með þeim vopnum sem menn búa sér til. Látnir, óbreyttir borgarar eru sömu gerðar, hvort sem þeir eru Bandaríkjamenn, Palestínumenn eða Írakar."

 Þegar Dagbladet spurði síðan hvort hann styddi hryðjuverkaárásina á Bandaríkin svaraði Gilbert:  ,,Hryðjuverk eru slæmt vopn en svarið er já, í því samhengi sem ég lýsti."    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert